Súðavíkurkirkja (1899)

Súðavíkurkirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Súðavíkurkirkja er í Ísafjarðarprestakalli í Vestfjarðaprófastsdæmi. Súðavík stendur á landi hins forna höfuðbóls og kirkjustaðar Eyri, sem átti stóra sókn, allt frá Hestfirði vestanverðum til og með Álftafirði.

Kirkjan sem nú stendur í Súðavík var flutt þangað frá Hesteyri í Aðalvíkurþingum árið 1960. Hún var fyrst reist með tilstyrk norskra hvalfangara 1899 á Hesteyri og voru hreint ekki allir ánægðir með flutninginn. Var jafnvel haft á orði að kirkjunni hefði verið stolið þegar hún var flutt til Súðavíkur.

Hér fyrir neðan má lesa nánar um sögu kirkjunnar þegar hún stóð á Hesteyri.

Saga staðarins og kirkjunnar.
Þorpið Hesteyri er við Hesteyrarfjörð í Jökulfjörðum norðan við Ísafjarðardjúp. Talið er að á Hesteyri hafi verið byggð frá fornu fari og árið 1881 var eyrin löggilt sem verslunarstaður. Á Hesteyri var síðan reist útibú frá Ásgeirsverslun á Ísafirði. Árið 1894 byggði norska fyrirtækið “Brödrene Bull” hvalveiðistöð á Stekkeyri, sem er rétt innan við þorpið. Var stöðin kölluð “Hekla” og upp úr því var farið að kalla eyrina Heklueyri. Í kringum þennan rekstur Norðmannanna myndaðist smám saman þéttbýli á Hesteyri, síðar var hvalstöðinni breytt í síldarverksmiðju, en þeim rekstri hins vegar hætt árið 1940. Um aldamótin 1900 voru íbúar þar 70 íbúar með fasta búsetu, árið 1942 voru þeir 420, en eftir það fór þeim ört fækkandi. Árið 1952 má segja að þorpið hafi verið komið í eyði, en ennþá eru þar 12 hús, sem afkomendur fyrri íbúa nota á sumrin.

Hesteyrarkirkja.
Á fyrstu árum byggðar á  Hesteyri var þar bænhús sem var útkirkja frá kirkjunni á Stað í Aðalvík. Nokkru eftir að Brödrene Bull reistu hvalveiðistöð sína á Hesteyri árið1894 ákváðu þeir að gefa Hesteyringum kirkju. Aðalhvatamaðurinn að þessari gjöf var Markus Bull frá Tönsberg í Noregi og fluttu þeir bræður timbrið í hana tilhöggvið frá Noregi. Var kirkjan fullbyggð þann 9. ágúst árið 1899, hún síðan vígð þann 3. september og þann 11. september afhenti Markus Bull Hesteyringum kirkjuna opinberlega. Kirkjunni sjálfri fylgdu ýmsar gjafir t.d. vegleg altaristafla, ljósastjakar, kaleikur, altariskanna, patína, skírnarskál, sálmabækur o.fl. Árið 1927 var Aðalvíkursókn skipt í tvennt og ári síðar var Hesteyrarkirkja endurbyggð yst sem innst.

Kirkjan flutt.
Fljótlega eftir að Hesteyringar tóku að flytjast á brott og íbúum fækkaði í kringum 1950 óttuðust þeir að kirkjan þeirra yrði rifin og/eða flutt í burtu. Þeir minntu margsinnis á að Brödrene Bull hefðu gefið þeim (þ.e. íbúunum sjálfum) kirkjuna á sínum tíma og því væri hún þeirra eigin eign, en ekki eign Þjóðkirkjunnar. Mikið var um þetta rætt og skrifað og bæði sr. Sigurður Kristjánsson, prófastur á Ísafirði, og sr. Ásmundur Guðmundsson, þáverandi biskup, fengu bréf frá íbúunum um þetta mál í lok júlí 1960.  En allt kom fyrir ekki, Hesteyrarkirkja var rifin niður haustið 1960 og flutt til Súðavíkur í Álftafirði, þar sem hún stendur enn.


 

Súðavíkurkirkja - Staðsetning á korti.

 


Súðavíkurkirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd