Kálfatjarnarkirkja (1893)

Kálfatjarnarkirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Kálfatjarnarkirkja er í Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1892-93 og vígð 11. júní 1893 af biskupi, herra Hallgrími Sveinssyni. Kirkjan er byggð úr timbri, járnvarin á hlöðnum grunni, meters háum. Kirkjusmiður og höfundur kirkjunnar var Guðmundur Jakobsson, húsasmíðameistari, en honum til aðstoðar var Sigurjón Jónsson kennari. Magnús Árnason, steinsmiður frá Holti á Vatnsleysuströnd hlóð grunninn. Pílárar á svalarbrúnum og í altarisgrindum ásamt ýmsum útskurði annaðist Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti á Vatnsleysuströnd. Málun kirkjunnar þótti sérstök, en hana annaðist Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915). Hann málaði m.a. Iðnó, Dómkirkjuna og fleiri merkar byggingar að innan. Málaraverk Nikolaj er hins vegar víðast hvar horfið, en í Kálfatjarnarkirkju má enn sjá að hluta þessa framlags hans til byggingarinnar.

Bygging kirkjunnar gekk afar hratt, hófst smíði hennar þegar eftir að gamla kirkjan hafði verið rifin, sú kirkja náði aðeins 29 ára aldri, byggð 1864. Nýir bekkir voru smíðaðir í kirkjuna 1968, teiknaðir af Ragnari Emilssyni. Söngloft er vestantil í kirkjunni og út með hliðunum eru svalir. Hún rúmar 150 manns samtals á báðum hæðum. Altaristaflan er eftirmynd altaristöflunnar í Dómkirkjunni í Reykjavík og jafn gömul kirkjunni, gerð af Sigurði Guðmundssyni málara. Þegar kirkjan var reist var hún stærsta sveitakirkja landsins og rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Þá stóð sjávarútvegur með miklum blóma á Vatnsleysuströndinni og margir vel efnum búnir útgerðarbændur bjuggu þar

Kirkja hefur líklega verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Ljósmynd Sigurður Herlufsen.


 

Kálfatjarnarkirkja - Staðsetning á korti.

 


Kálfatjarnarkirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd