Hóladómkirkja (1763)

Hóladómkirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Hóladómkirkja er í Hólaprestakalli í Skagafjarðarprófastsdæmi. Prestur sat á Hólum eftir að biskupsstóllinn var lagður niður, til 1861.  Þá var Hofsstaðasókn lögð til Hóla en Viðvík gerð að prestsetri og prestakallið nefnt  Viðvíkurprestakall.  Síðasti prestur á Hólum á síðustu öld var séra Benedikt Vigfússon (1797-1868).  Séra Benedikt var góður búhöldur og stórefnaður.  Hann reisti bæ árið 1854, sem stendur enn þá.  Hann er friðlýstur og í umsjá Þjóðminjasafnsins.  Árið 1952 voru Hólar gerðir að prestssetri að nýju og eru útkirkjur á Ríp og Viðvík.  Hólar munu hafa byggzt úr landi Hofs.  Ekki komu þeir við Íslendingasögur, en um miðja 11. öld bjó þar maður að nafni Oxi Hjaltason og lét hann gera kirkju  mikla á staðnum.

Um 1100 átti Illugi Bjarnason prestur jörðina.  Þá var ákveðið, að biskupsstóll skyldi settur á Norðurlandi, en enginn vildi standa upp af föðurleifð sinni fyrr en Illugi varð til þess að gefa Hóla til biskupsseturs.  Gerði hann það „fyrir guðs sakir og nauðsynja heilagrar kirkju”, segir í Jónssögu helga.  Hólar voru biskupssetur um 7 alda skeið, á árunum 1106-1798, og raunverulegur höfuðstaður Norðurlands á þeim tíma.  Skóli var þar löngum samtímis biskupssetrinu en hann var lagður niður 1802.  Hólar eru vígslubiskupssetur.  Dómkirkjan á Hólum, sú sem nú stendur, var reist á dögum Gísla biskups Magnússonar.  Hann hafði mikinn áhuga á að reisa Hólastað úr þeirri niðurlægingu, sem hann var þá í.  Til að afla fjár til byggingarinnar var lagt gjald á allar kirkjur í Danmörku og Noregi og síðar tekin upp almenn fjársöfnun í þessum löndum, er sýnt var, að Hólastóll yrði lítt aflögufær vegna harðinda.

Þekktur, danskur arkitekt, Lauritz de Thurah, tekinaði kirkjuna en þýzkur múrmeistari, Sabinsky, stóð fyrir byggingunni og hófust framkvæmdir 1757.  Byggingarefni, sem er sandsteinn og blágrýti, var sótt í Hólabyrðu og var verkamönnum fyrst greitt kaup en síðar voru bændur í Skagafirði, Eyjafirði og Húnaþingi skyldaðir til þess að vinna kauplaust við bygginguna og mæltist það illa fyrir.  Árið 1760 kom annar múrmeistari, Schätzer, til að vinna að kirkjunni en timbursveinn að nafni Christen Willumsøn sá um tréverk.  Kirkjan átti að heita fullgerð haustið 1763 og var vígð með mikilli viðhöfn hinn 20 nóvember það ár.  Allmikið vantaði þó á að frá henni væri gengið eins og ætlað var í upphafi.  Turn var aldrei reistur, ekki var sett söngloft í kirkjuna og timburþak var af vanefnum gert í stað steinþaks.  Það lak þegar mjög og var þá sett annað timburþak yfir, sem dugði uns bárujárnsþak var sett á kirkjuna 1886.  Jóni Arasyni, biskupi, og sonum hans var reistur minnisvarði á Hólum, sem var vígður á 400 ára dánarafmæli hans, árið 1950.  Það er 27 m hárturn við dómkirkjuna.  Í turninum er lítil kapella með grafhýsi, sem varðveitir bein þeirra að því er talið er.  Annar minnisvarði um Jón er í Skálholti og hinn þriðji á Munkaþverá.  Þá er minningarlundur Jóns í landi Grýtu í Eyjafirði, sem talin er fæðingarstaður hans.

Árið 1881 keypti Skagafjarðarsýsla Hóla og 1882 var stofnaður þar búnaðarskóli.  Stóðu Skagfirðingar einir að honum fyrsta árið en næsta ár gengu Húnvetningar í lið með þeim og frá 1889 átti allt Norðuramtið aðild að skólanum og hafði staðarforráð til 1905 en þá var ákveðið með lögum að ríkissjóður tæki að sér skólann og skólabúið.  Svo hefur verið síðan, eða þar til fyrir nokkrum árum, að skólastarfið var einskorðað við hestarækt og hestamennsku.  Í tengslum við bændaskólann var tilraunabú í sauðfjárrækt og einnig hrossaræktarbú, sem Búnaðarfélagið styrkti  og hafði umsjón með.  Fiskibúið Hólalax hf. var stofnað 1980.  Að því eiga aðild veiðifélög á öllu Norðurlandi og einnig í Strandasýslu en ríkissjóður á einnig allmikill hluta og er gert ráð fyrir, að við skólann verði eflt nám í fiskeldisfræðum.  Stór fiskeldisstöð er við Hjaltadalsá, niður undan Hofi.  Þaðan eiga að fást 200 þúsund seiði á ári og auk þess er kennsluaðstaða í stöðinni.  Heitt vatn var leitt þangað frá Reykjum árið 1980 en 1981 var það leitt til Hóla.

Á Hólum í Hjaltadal er talið að fyrst hafi verið byggð kirkja um 1050. Sá er hana lét byggja var Oxi Hjaltason, barnabarn Hjalta Þórðarsonar er nam Hjaltadal og bjó á Hofi. Sagt er að sú kirkja hafi verið stærst á öllu Íslandi. Oxi hefur sennilega haft í huga það sem menn héldu í upphafi  kristni, að sá sem byggði kirkju myndi hafa yfir að ráða jafn mörgum í himnaríki og staðið gætu á kirkjugólfinu.

Margir munir hafa varðveist á söfnum bæði hérlendis og erlendis frá kaþólskri tíð á Hólum. Má þar nefna stólu, handlín og hluta höfuðlíns sem talið er vera frá því um 1200. Það er fagurlega útsaumað með gullþræði í rautt silki. Einnig er á Þjóðminjasafninu kantarakápa Jóns Arasonar. Í kirkjunni sjálfri eru enn margir hlutir frá því í kaþólskum sið eins og altaristaflan sem Jón Arason keypti fyrir kirkjuna, alabasturs altarisbrík sem talin er vera frá því um 1470, róðukross sem talinn er frá fyrri hluta 16. aldar og kaleikur og patína frá 13. öld.

Biskupsstóllinn á Hólum hefur skipað ríkan sess í hugum Norðlendinga í gegnum aldirnar og orðtakið sem varð til í biskupstíð Guðmundar Arasonar, „heim að Hólum”, hefur haldist síðan, þótt liðin séu 800 hundruð ár frá því að hann var biskup þar.

Lesa má meira um Hóladómkirkja á vefsíðu kirkjunar.

Ljósmynd Sigurður Herlufsen.


 

Hóladómkirkja - Staðsetning á korti.

 


Hóladómkirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd