Háteigskirkja (1965)

Háteigskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Háteigsprestakall var stofnað með lögum 17. júlí 1952, en árið 1963 breyttust sóknarmörk með stofnun Grensásprestakalls. Í upphafi var söfnuðurinn án kirkju, en messað var í Fossvogskapellu og í hátíðarsal Sjómannaskólans. Háteigskirkja var hönnuð af Halldóri H. Jónssyni arkitekt. Byggingameistari var Þórður Jasonarson. Þótt ýmsu væri ólokið var kirkjan vígð á aðventu 1965. Það var þáverandi biskup Íslands, hr. Sigurbjörn Einarsson sem vígði kirkjuna að viðstöddu fjölmenni.

Kvenfélag Háteigssóknar gaf kirkjunni kórmynd eftir Benedikt Gunnarsson listmálara á aðventu 1988. Kórmyndin sem er 40 fermetrar að stærð ber yfirskriftina ,,Krossinn og ljós heilagrar þrenningar" og er mósaíkverk sem unnið var eftir teikningum höfundar af Franz Mayer´sche Hofkunstanstalt, München, Þýskalandi. Kórmyndin var fyrsta verkið sem þetta fyrirtæki vann fyrir íslenska kirkju. Auk þess var Benedikt fyrsti íslenski listamaðurinn vann með fyrirtækinu við slíkt stórverk. Í verkið valdi Benedikt misþykkt mósaikefni, sem að meginhluta er úr handsteyptu plötugleri og feneysku glersmelti. Auk fyrrgreinds efnis valdi hann einnig fjölmarga náttúrusteina, meðal annars ýmsar tegundir marmara og hálf-eðalsteina, antíkgler, tilhöggvið gler, blaðgull og blaðsilfur í myndinni. [1] Í safnaðarheimilinu er að finna verk eftir Benedikt sem ber titilinn „Hvítasunna - kraftbirting heilags anda" og var önnur tillaga hans að kórmynd í kirkjunni en Benedikt færði kirkjunni verkið að gjöf í nóvember 2002 í tilefni af 50 ára afmæli safnaðarins.

Prestkostningar fóru fyrst fram í Háteigssókn í október 1952 og var sr. Jón Þorvarðarson kosinn lögmætri kosningu og þjónaði hann söfnuðinum til október 1976. Annar prestur safnaðarins var Sr. Arngrímur Jónsson sem hóf störf í janúar 1964, en hann hafði hlotið flest atkvæði í prestskosningum 1. desember 1963. Hann þjónaði söfnuðinum til ársins 1993. Þriðji prestur safnaðarins Sr. Tómas Sveinsson hlaut flest atkvæði og var skipaður í embættið í nóvember 1976. Hann er sóknarprestur kirkjunnar í dag. Fjórði prestur safnaðarins Sr. Helga Soffía Konráðsdóttir hóf störf við Háteigskirkju í október 1993. Nokkrir prestar hafa komið að afleysingum í lengri eða skemmri tíma við kirkjuna, þar á meðal sr. Carlos Ferrer, sr. María Ágústsdóttir og sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir.

Ljósmynd:  Sigurður Herlufsen


 

Háteigskirkja - Staðsetning á korti.

 


Háteigskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd