Hallgrímskirkja (1986)

Hallgrímskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Hallgrímskirkja er kennd við prestinn og skáldið Hallgrím Pétursson (1614-1674), sem kunnur er fyrir Passíusálmana. Hún stendur efst á Skólavörðuholtinu með 73 m háan turn, sem gerir hana að mest áberandi mannvirki borgarinnar og þar með eitt aðalkennileiti hennar. Útsýni er frábært úr turninum á góðum degi. Gjald er tekið fyrir notkun lyftunnar í turninum.

Ekkert annað mannvirki hefur verið lengur í byggingu hérlendis. Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, var fenginn til að gera teikningar af kirkju á Skólavörðuholtinu árið 1937. Hann keppti að því að sameina íslenzka náttúru og byggingarlist í kirkjunni. Árið 1948 var kapellan undir núverandi kór kirkjunnar vígð. Árið 1974 voru turn og kirkjuvængir með nýrri kapellu fullgerðir og árið 1986 var kirkjuskipið vígt á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar.

Söfnuðurinn bar 60% kostnaðar en 40% komu frá einstaklingum, fyrirtækjum og ríkisstofnunum. Í desember 1992 var orgel kirkjunnar vígt. Það smíðuðu orgelsmiðir þýzka fyrirtækisins Johannes Klais í Bonn. Það er með fjórföldu hljómborði og pedulum, 72 stillingum og 5275 pípum. Orgelið er 15 m hátt og vegur 25 tonn og þar með stærst sinnar tegundar á landinu. Fjármögnun orgelsins fer m.a. þannig fram, að fólki og fyrirtækjum er gefinn kostur á að kaupa einstakar pípur, sem merktar eru kaupendum. Lengstu pípurnar er u.þ.b. 10 m langar.

Aðalinngang Hallgrímskirkju prýða veglegar bronshurðir, sem mynda neðsta hluta gler- og bronslistaverks Leifs Breiðfjörð.  Á hurðir kirkjunnar eru mynduð tákn úr sögu kristni og kirkjulistar. Meginform táknanna er fjórblað, sem er mikilvægt tákn listaverksins alls. Í fjórblaðaformi hurðanna er ímynd Krists til hægri og mannsins til vinstri. Þyrnikóróna fléttast um þessar myndir. Þannig er þjáning mannsins um leið þjáning Krists. Flétta þyrnikórónunnar endar í hurðarhúninum. Þar nær saman hönd Guðs og manns. Að innanverðu myndar hurðarhúnninn krossmark, sameiningartákn gjörvallrar kristni.

Hluti fjórblaðaformsins er lagður rauðu ítölsku glermósaiki. Það minnir á blóð Krists, elsku hans og fórn. Fjórblaðaformið myndar krossmark, hið sígilda tákn krossfestingar Krists, dauða og upprisu. Fletirnir fjórir á innanverðum hurðunum tákna fagnaðarerindið og eru einnig tákn kirkjunnar, sem meðtekur orð Guðs. Erkienglarnir fjórir, Mikael, Gabríel, Rafael og Úríel eiga þar hver sitt tákn.
Á hurðinni standa orðin: Komið til mín. Þau eru hvatningarorð Drottins Jesú til allra manna og fyrirheit um eilífan kærleika hans.
Yfir dyrunum er inngönguvers Hallgríms Péturssonar:

Þá þú gengur í Guðshús inn
gæt þess vel, sál mín fróma,
hæð þú þar ekki herrann þinn
með hegðun líkamans tóma.
Beygðu holdsins og hjartans kné,
heit bæn þín ástarkveðja sé.
Hræsnin mun síst þér sóma.
  (Ps. 24)

Sumarið 1992 var gefin út geisladiskur með myndum af Hallgrímskirkju, vígsluathöfn orgelsins og öðrum íslenzkum orgelverkum. Tekjur af sölu hans renna til orgelssjóðs. Minna orgelið með 10 stillingum var keypt frá Th. Frobenius & Sønner A.S. í Danmörku árið 1986. Samtímis orgelkaupunum var sætum kirkjunnar komið fyrir. Þau eru breytanleg, þannig að kirkjugestir geta snúið aftur eða fram í kirkjunni eftir athöfnum. Kirkjan tekur 1200 manns í sæti. Hurðir kirkjuskipsins eru blýskreyttar sem og predikunarstóllinn. Listamaðurinn Leifur Breiðfjörð annaðist það. Hvort tveggja var vígt á hvítasunnu 1993.  Hinn hái, steindi gluggi yfir inngangi kirkjunnar bættist í safn verka eftir Leif árið 1999.  Hann er kallaður „Dýrð-Vald-Virðing”.

Sjötugsafmæli Sigurbjörns Einarssonar (†2008), biskups, árið 1981 var tilefni til gjafa til kirkjunnar, sem gerðu kleift að ljúka þessu verkefni. Fyrirhugað er að setja steinda glugga í kirkjuna, a.m.k. í kórinn, en margir eru þeirrar skoðunar, að draga eigi sem minnst úr birtu í kirkjunni. Einar Jónsson, myndhöggvari, gaf kirkjunni Kristmyndina í kirkjunni árið 1948. Hún sýnir Krist meðtaka skírn heilags anda. Hann gerði líka styttuna til minningar um Hallgrím Pétursson. Sigurjón Ólafsson gerði höggmyndina Marturium.

Meðal margra guðsorðabóka í kirkjunni er afrit af Guðbrandsbiblíu, sem var prentuð að Hólum árið 1584. Þótt skipsmódel séu ekki algeng í íslenzkum kirkjum, er eitt slíkt í kirkjunni, kútter, sem er gjöf frá Færeyingum. Í norðurhluta kirkjunnar er kapella. Í anddyri kirkjunnar fara fram skiptisýningar ýmissa listamanna. Sóknarbörn kirkjunnar eru u.þ.b. 6000. Þeim þjóna tveir prestar, aðstoðarprestur og forsöngvari auk fjölda sjálfboðaliða, sem starfa með börnum og öldruðum. Tveir prestar Landsspítalans og prestur heyrnalausra eru tengdir kirkjunni. Tónleikar eru haldnir reglulega í kirkjunni.

Heimildir: Bæklingur kirkjunnar.

Ljósmynd Sigurður Herlufsen.


 

Hallgrímskirkja - Staðsetning á korti.

 


Hallgrímskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd