Grafarvogskirkja (2000)

Grafarvogskirkja

 

Ljósmyndir frá notendum kirkjukort.net

Saga kirkjunnar

Grafarvogskirkja þjónar Grafarvogssókn sem er stærsta sókn landsins og markast af Elliðaám að vestan, Vesturlandsvegi  að borgarmörkum við Blikastaði og strandlínunni norðan megin við Grafarvogshverfi.

Söfnuðurinn var stofnaður 1989 og var félagsmiðstöðin Fjörgyn  í Foldaskóla notuð sem kirkja þar til hægt var að taka fyrsta hluta kirkjubyggingarinnar í notkun. Fyrsta skóflustunga að kirkjubyggingunni var tekin 18. maí 1991 og var fyrri hluti kirkjunnar vígður 12. desember 1993. Lokið var við byggingu kirkjunnar árið 2000 og vígði biskup Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson kirkjuna 18. júní 2000.

Grafarvogskirkja er þrískipt, - miðskipið er „Via Sacra,“ hinn heilagi vegur sem táknar um vegferð mannsins frá vöggu til grafar og áfram til eilífðar. Við enda hins heilaga vegar er hringurinn sem er söfnuðurinn. Hringurinn er opinn á móti eilífðinni þar sem er altarið; borð Drottins. Þarna sameinast tveir helstu pólar í kirkjuarkitektúr; vegurinn og hringurinn. Eins og í dómkirkjum miðalda tengjast miðskipinu ótal rými og kapellur sem þjóna þörfum líðandi stundar.

Miðskipið er steinsteypt og klætt steinum. Steinarnir í veggjum miðskipsins er skírskotun til ritningarinnar þar sem segir „… látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús.“ Steinarnir tákna þar mannlífið sem er „… musteri Guðs.“ Þannig eru steinarnir tákn safnaðarins.

Þegar inn í kirkjuna er komið blasir við enda miðskipsins stór steindur gluggi, „Kristnitakan“ eftir Leif Breiðfjörð sem er um 6 metrar á breidd og 12 metrar á hæð. Veggir og gólf eru klædd steinflísum af sömu gerð og notaðar eru utaná byggingunni. Í loftinu eru hvítar málmplötur sem stjórna ómtíma hljóðsins í kirkjunni. Ofan við málmplöturnar er lýsing sem er ofurlítið óregluleg og fer vaxandi þar til komið er að altarinu þar sem hún er í hámarki í hæð og ljósmagni. Þetta er skírskotun til himinsins. Ómtíminn lengist eftir því sem nær dregur altari. Forkirkjan og miðskipið „Via Sacra“ er lífæð hússins þar sem hátíðlegt yfirbragð eykst eftir því sem innar dregur.

Ef horft er á grunnmynd kirkjunnar sést að hún líkist fiski, en fiskur er elsta tákn kristinna manna. Fiskur er á grísku „ichþys.“ Þegar kristnir menn sáu stafina skildu þeir að þarna var skammstöfun fyrir orðin: Jesú Kristur, Guðs sonur, frelsari. Við þetta varð fiskurinn leynilegt felumerki.

Kirkjan er þrískipa, en skipið er eitt af táknum kirkjunnar þar sem sagt er að „kirkjan sé skip sem siglir yfir heiminn. Drottinn er við stýrið og hinir kristnu áhöfnin og hreyfiaflið er heilagur andi. Fyrir afli hans siglir skipið í höfn Paradísar og lífsins eilífa. Guðs orð er áttavitinn …“

Af grunnmynd kirkjunnar má lesa nokkrar helstu tölur sem skipað hafa stóran sess í trúarlegu táknmáli. Fyrst er að telja miðskipið sem er eitt. Talan einn er móðir allra talna; Guð er einn og einn er tala upphafsins. Hliðarskipin eru tvö; lögmál og fagnaðarerindi, Gamla- og nýja testamenti. Skip kirkjunnar eru þrjú; heilög þrenning. Upprisa Jesú var á þriðja degi. Hliðarskipunum er skipt í fjóra hluta; tölu heimsins, höfuðáttirnar og guðspjallamennirnir fjórir. Af allri grunnmyndinni má síðan sjá form fisksins sem er elsta tákn kristinna manna.

Ljósmynd Sigurður Herlufsen.


 

Grafarvogskirkja - Staðsetning á korti.

 


Grafarvogskirkja - Beinn hlekkur

Viljir þú vísa inn á þessa síðu þá má nota hlekkina hér að neðan. Beinir hlekkir inn á síðuna hjálpa okkur að dreifa henni og láta einnig leitarvélar þekkja síðuna betur.

Hlekkur

Hlekkur með mynd